Rannsóknir á gangtegundum íslenska hestsins

Senast ändrad: 25 februari 2014

Við stefnum að því að halda áfram rannsóknum á gangtegundum íslenska hestsins, og því hvernig gangráðurinn, DMRT3, hefur áhrif á gangupplag einstaklinga. Einnig þá ætlum við að reyna að finna aðra erfðaþætti sem hafa með gangtegundir að gera. Þar af leiðandi þá óskum við eftir sýnum úr miklum fjölda hesta af ólíkum gerðum. Klárhross án tölts, klárhross með tölti og alhliða hross eru öll vel þegin. Mesta áherslu leggjum við á hross sem falla að eftirfarandi skilgreiningum, þó öll önnur hross séu vel þegin.

  1. A.    Hross sem eru skeiðmegin í lífinu.

-       Hross sem eru ekki bara skeiðlagin undir knapa, heldur kjósa að skeiða undir sjálfum sér og brokka helst aldrei, hvorki undir knapa né á eigin vegum.

-       Óforbetranlegir lullarar sem brokka eða tölta ekki undir knapa, þó þau geti kosið annan gang undir sjálfum sér.

-       Hross sem skeiða/lulla helst af öllu, þó þau geti tölt, en brokka ekki fái þau því ráðið, hvorki undir knapa né sjálfum sér.

  1. B.    Hross sem eru brokkmegin í lífinu.

-       Klárhross með gamla laginu, án tölts og skeiðs. Góðgangslaus með öllu.

-       Hross sem þurfti að hafa mikið fyrir að fá tölt í vegna þess að þau voru svo brokkgeng.

-       Hross sem „gleyma“ tölti ef knapinn er ekki mjög fær, eða jafnvel þó knapinn sé fær. Sem þarf að gangsetja í sífellu. 

  1. C.    Eðlistöltara.

-       Hross sem kjósa tölt framar öllum öðrum gangi, ekki eingöngu í reið heldur líka þegar þau eru sjálf á milliferð í haga.

-       Hross sem fást ekki til að brokka eða skeiða undir knapa, heldur tölta eingöngu, þó þau geti kosið annan gang undir sjálfum sér.

  1. D.    Hross sem eru algerlega óyggjandi skeiðlaus, þó þau geti tölt.

-       Hross sem búið er að reyna mikið til að fá til að skeiða, en gengur ekki.

-       Hross sem eru undan báðum foreldrum vökrum, en fást engu að síður ekki til að skeiða, þótt mikið hafi verið reynt.

Hrossin þurfa að vera tamin og gangsett, hvort sem tókst að fá tölt úr þeim eður ei. Ef áhugi er fyrir því að taka þátt og ljá okkur lið með því að leggja fram hársýni úr hrossum, vinsamlegast sendið tölvupóst á horseDNA@slu.se eða kim.jaderkvist@slu.se . Skrifið heimilisfang og fjölda hrossa í tölvupóstinn, við munum þá senda bréf í pósti með stuttum spurningalista og því sem til þarf til að taka hársýni.

Stuttum spurningalista 


Kontaktinformation